VHE hefur hannað og smíðað tvær gerðir af hulsupressum. Þessar vélar eiga það þó sameiginlegt að vera sterkbyggðar og hannaðar til að endast. Nýjasta hulsupressan frá VHE er gerð fyrir 3ja tinda gaffla en auðvelt er að aðlaga hana að annars konar tindaútsetningu. Vélin brýtur allar hulsur af samtímis og sparar þar með tíma og búnað þar sem ekki þarf að færa skautið eða vélina úr stað til að ná öllum hulsum af.
Sex kjaftar ganga fram sitt hvoru megin við skautið og halda við hulsurnar. Einn öflugur vökvatjakkur lyftir undir tindana og brýtur hulsurnar af. Með því að hafa einn tjakk er tryggt að átak á alla tinda verði samtímis og ekki hætta á að okið eða leggurinn bogni. Viðhaldskjaftarnir eru með útskiptanlegum slitplötum og yfir brot-tjakknum er hlíf sem hleypir engum óhreinindum niður á tjakkinn.
Búnaðurinn er sterklega hannaður til að tryggja langan líftíma og lágmarksviðhald. VHE hefur einnig hannað og smíðað hulsupressur þar sem ein hulsa er brotin af í einu. Slík vél er að vonum einfaldari að gerð en getur verið góður kostur þar sem krafa um afköst leyfir.