Hulsuhreinsun

VHE járnhreinsibúnaðurinn samanstendur af tvískiptri innhellirennu og hristirennu sem matar efni inní tromlu. Tromlunni er snúið með öflugum gírmótor og skóflur í hliðum hennar lyfta járninu upp á hæfilegum hraða þar til það fellur aftur niður í miðja tromluna. Þannig veltist efnið til, óhreinindi losna af og yfirborð járnsins er hreinsað.

Innhellirennan getur annars vegar beint efninu að tromlunni eða framhjá henni og lendir þá efnið óhreinsað í dalli við hlið tromlunnar. Þetta er hugsað til að ekki þurfi að stöðva mötun á hulsum frá hulsubrjót þegar sinna þarf viðhaldi á hreinsitromlunni.

Tromlan sjálf er tvöföld. Annars vegar er hreinsitromlan sjálf sem snýst og hins vegar ytra byrði sem hreyfist ekki. Sjálf hreinsitromlan (innri tromlan) er smíðuð úr götuðum plötum þannig að óhreinindi sem losna af hulsunum myljast niður og falla í gegnum götin, niður í trektlagaðan botn ytra byrðisins. Þaðan er efnið flutt með snigli í sekk. Undir sekknum sem tekur við efninu frá hreinsitromlunni, er vog sem segir til um hvenær sekkurinn er fullur.  Við úttak hreinsitromlunnar er tvískipt færiband sem matar annars vegar tóma dalla að úttaki tromlunnar og færir hins vegar, fulla dalla frá tromlunni. Dallar eru settir á, og teknir af bandinu með lyftara.

Að hæfilegum tíma liðnum er tromlan stöðvuð og henni snúið í gagnstæða átt. Þá ýta skóflurnar hreinsuðu efninu út þar sem það fellur í tóman dall á færibandinu.