Kerskáli

VHE hefur um langt skeið veitt ýmsa þjónustu tengda kerskálum álvera. Má þar nefna ýmsa viðhalds- og viðgerðaþjónustu ásamt hönnun og smíði búnaðar.

Hjá Alcoa Fjarðaáli rekur VHE kersmiðju sem sér um að aftengja ker, hreinsa þau og endurnýja bakskaut og múr. Kerskeljar eru fluttar á verkstæði VHE og gert við þær eftir þörfum. VHE sér einnig um viðgerðir á ker-yfirbyggingum, kerlokum og skurnbrjótum fyrir AF.

VHE hefur hannað og smíðað búnað til að hreinsa „sveppi“ (spikes) sem geta myndast undir forskautum. Hægt er að hreinsa hvort heldur sem er, heit eða köld skaut. Búnaðurinn er mun einfaldari og þægilegri í notkun, en sá búnaður sem hingað til hefur verið í boði. Hann er lyftaratækur og tengist við vökva- og rafkerfi lyftarans.

Einnig hefur VHE hannað og smíðað baðefnabrjóta og kælibönd fyrir efnisvinnslu kerskála ásamt blöndunarstöð fyrir baðefni.

Mælibúnaður VHE fyrir kerskála er löngu orðinn þekktur, hér á landi og víða um heim. VHE framleiðir straummælibúnað fyrir forskaut og bakskaut. Bakskautamælir VHE á sér engan sinn líkan í heiminum. Hann er mjög léttur og þægilegur í notkun og hægt er að sníða mælihausinn eftir þörfum viðskiptavinarins, t.d. með það í huga hvort mælingar fara fram í kjallara eða frá kerskálagólfi.

Sóley er sérstakur viðnámsmælir til að mæla viðnám frá kerlínu út í allan búnað nálægt kerinu sem á að vera einangraður frá kerspennu. Á seinni árum hafa margir sýnt þessum búnaði áhuga þar sem um er að ræða mjög þýðingamikið tæki til að tryggja öryggi starfsmanna í kerskálum.
Þá smíðar VHE einnig fasttengda viðnámsmæla fyrir kerskála sem mæla stöðugt jarðleiðni skálans.